Stjórnarháttayfirlýsing

Stjórnarháttayfirlýsing Náttúruhamfaratrygging Íslands. 

 

Inngangur

Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) starfar skv. sérlögum nr. 55/1992 um Náttúruhamfaratryggingu Íslands og reglugerð nr. 642/2017 um Viðlagatryggingu Íslands með áorðnum breytingum. Starfsstöð NTÍ er í Hlíðasmára 14, Kópavogi. 

 

Náttúruhamfaratrygging

Náttúruhamfaratrygging er lögbundin náttúruhamfaratrygging sem bætir beint tjón á tryggðum eignum af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Náttúruhamfaratrygging fylgir brunatryggingu húseigna sem er lögbundin skyldutrygging. Sé lausafé tryggt gegn bruna hvort heldur með sérstakri lausafjártryggingu eða samsettri lausafjártryggingu, er innifelur bætur af völdum eldsvoða og flokkast undir eignatryggingar, þá fylgir náttúruhamfaratrygging slíkri vátryggingu. Vátryggingaupphæð náttúruhamfaratryggingar eru sú sama og viðkomandi brunatryggingar en tryggingarskilmálar eru aðrir.

Einnig er skylt að náttúruhamfaratryggja mannvirki, s.s. brýr, hafnir, skíðalyftur og ýmis veitumannvirki í opinberri eigu þótt þau séu ekki brunatryggð. Þegar mannvirki eru náttúruhamfaratryggð hjá NTÍ er átt við frumtryggingastarfsemi á sviði skaðatrygginga.  Vátryggja má mannvirkin annars staðar en hjá NTÍ.

 

Ágreiningur um bótaskyldu

Ágreiningi um hvort bótaskylt tjón hafi orðið eða um fjárhæð vátryggingarbóta má skjóta til úrskurðar stjórnar NTÍ. Vilji tjónþoli ekki sætta sig við úrskurð stjórnar getur hann skotið ágreiningnum til sérskipaðrar úrskurðarnefndar.

NTÍ starfar á sviði skaðatrygginga samkvæmt lögum nr. 55/1992 og lögum um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016. Í samræmi við lög um endurskoðendur nr. 79/2008 eru vátryggingafélög skilgreind sem einingar tengdar almannahagsmunum og er sérstaklega kveðið á um hlutverk endurskoðunarnefnda í slíkum einingum í lögum um ársreikninga nr. 3/2006. 

 

Samkvæmt útgefnum ársreikningi voru iðgjöld ársins 2017 í árslok kr. 2.751.705.000.   

Starfsreglur stjórnar eru aðgengilegar á vef NTÍ. Stuðst er við leiðbeiningar Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq Iceland hf. og Samtaka atvinnulífsins útgefnum í maí 2015 við ritun stjórnarháttayfirlýsingar þessarar. Einnig tekur starfsemin mið af leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins (FME) um stjórnarhætti vátryggingafélaga nr. 5/2015, en NTÍ er undanþegin Solvency II og því eiga tilmælin ekki við um NTÍ.

 

Frávik frá leiðbeiningum.

Leiðbeiningarnar taka mið af lögum um hlutafélög og því eiga þau ekki við um starfsemi NTÍ. Engu að síður eru þær hafðar til hliðsjónar. Mælst er til þess að tiltaka öll frávik frá leiðbeiningunum, en í tilviki NTÍ er eðlilegra að telja upp við hvaða ákvæði leiðbeininganna er stuðst. Önnur ákvæði eiga ekki við í starfsemi NTÍ. 

1. kafli. Við undirbúning og framkvæmd ársfundar NTÍ eru leiðbeiningarnar hafðar til hliðsjónar. 

2. kafli. Leiðbeiningarnar eru hafðar til hliðsjónar varðandi óhæði stjórnarmanna gagnvart NTÍ og daglegum stjórnanda þess, starfsreglum stjórnar, árangursmati, áhættustjórnun,  innra eftirliti og fundargerðir stjórnar. 

3. kafli. Ákvæðin eru höfð til hliðsjónar við gerð starfsreglna fyrir stjórn.

4. kafli. Ákvæðin eru höfð til hliðsjónar við skilgreiningu á hlutverki framkvæmdastjóra sem er hluti af starfsreglum stjórnar.

5. kafli. Engar undirnefndir stjórnar eru starfandi í NTÍ fyrir utan endurskoðunarnefnd sem er lögbundin og starfar samkvæmt þeim ákvæðum sem um hana gilda.

6. kafli. Við gerð stjórnarháttaryfirlýsingar fyrir NTÍ er einkum höfð hliðsjón af þessum kafla og leitast við að gera yfirlýsinguna þannig úr garði að hún taki mið af þeim atriðum sem koma fram í kaflanum. Þannig verður birt yfirlýsing um stjórnarhætti NTÍ fyrir nýliðið starfsár í ársskýrslu og verður hún aðgengileg á heimasíðu NTÍ. Einnig mun sérstakur hluti vefsíðu NTÍ verða tileinkaður góðum stjórnarháttum þar sem birtar verða allar helstu uppýsingar á einum stað um starfsemi félagsins. 

 

Fyrirkomulag samskipta ráðuneytis og stjórnar 

NTÍ sendir ráðuneytinu ársreikning og ársskýrslu NTÍ árlega í beinu framhaldi af ársfundi. Önnur samskipti eru í tenglum við lög og reglur sem um NTÍ gilda og úrskurðarnefnd um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Framkvæmdastjóri leggur áherslu á að upplýsa fagráðuneyti um öll mál sem geta talist mikilvæg og/eða þarf að hafa í huga varðandi starfsumhverfi NTÍ.

Brot á lögum og reglum 

NTÍ hefur enga dóma hlotið fyrir refsiverðan verknað skv. almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um vátryggingafélög eða löggjöf um bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með vátryggingastarfsemi. 

Innra eftirlit og áhættustýring 

NTÍ lýtur eftirliti FME og hefur komið á samhæfðri áhættustýringu sem nær til allra rekstrarþátta NTÍ. Fram til ársins 2017 voru í gildi leiðbeinandi tilmæli FME nr. 3/2014 um áhættustýringu og starfssvið tryggingastærðfræðings hjá vátryggingafélögum sem áhættustýring NTÍ byggði á, en þau hafa nú verið felld úr gildi. Þar sem FME mun ekki viðhalda tilmælunum var ákveðið að líta til COSO ERM 2017 við endurskoðun samhæfðrar áhættustýringar frá árinu 2017. Núverandi áhættustefna byggir því á nýjustu leiðbeiningum COSO sem stendur fyrir Commitee of Sponsoring Organizations of the Treadway Commission. 

Stjórnkerfi og skipulag NTÍ er skráð í gæðakerfi hennar. Leiðbeiningar fyrir starfsmenn stofnunarinnar miða að því að hver og einn beri ábyrgð á gæðum vinnu sinnar, þjónustu NTÍ og upplýsingaöryggi. Innra eftirlit er innbyggt í verklagsreglur NTÍ og eru innri úttektir og áhættugreiningar framkvæmdar reglulega. Gæðafulltrúi kynnir niðurstöðu gæða- og öryggismála innri úttekta og stöðu úrbótaverkefna í kjölfar innri endurskoðunar og annarra úttekta fyrir stjórn árlega.

NTÍ leggur áherslu á skýra verkaskiptingu og ábyrgð. Mánaðarleg skýrslugjöf er varðar eignastýringarsafn er mikilvægur þáttur hjá stjórn NTÍ. Ítarleg skýrslugjöf um safnið er gerð ársfjórðungslega og árlega er eigið áhættu- og gjaldþolsmat framkvæmt.  Árleg skýrsla um áhættustýringu og aðrar reglulegar úttektir miða að því að tryggja gagnsæi í starfseminni og auðvelda NTÍ að uppgötva og leiðrétta hugsanlegar skekkjur, fylgjast með frávikum og sveiflum í starfseminni og gefa svigrúm til að bregðast við ef áhættuþættir eða breytingar í rekstrarumhverfi gefa tilefni til. Framkvæmdastjóri fundar að jafnaði nokkrum sinnum á ári með fjárstýringaraðilum, um hvernig stýringu og eftirliti með fjárfestingum er háttað og meta hvort það sé fullnægjandi. 

Tjónaskuld og endurtryggingavernd NTÍ eru metnar með reglulegum hætti og þess gætt að þær séu í samræmi við þarfir stofnunarinnar og skuldbindingar hennar. 

Samningur varð gerður á grundvelli útboðs með milligöngu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ársreiknings NTÍ til fimm ára fyrir tímabilið 2013-2017 við Endurskoðendaþjónustuna ehf. Samningur  um innri endurskoðun hefur veirð gerður til þriggja ára við PWC fyrir tímabilið 2017-2019. 

 

Hlutverk, framtíðarsýn og vegvísar 

Frá árinu 2010 hefur verið unnið að stöðugum framförum í starfsemi Náttúruhamfaratryggingar Íslands. Á fundi stjórnar og starfsfólks sem haldinn var á árinu 2013 voru unnar siðareglur fyrir NTÍ sem ætlað er að vera nokkurs konar vegvísir fyrir þá sem starfa í þágu NTÍ. Siðareglurnar eru leiðarljós stjórnar og starfsmanna um þá siðferðislegu ábyrgð sem allir hlutaðeigandi hafa sammælst um að fylgja í orði og verki. Reglurnar byggja á gildum sem skulu vera ráðandi í öllum ákvörðun NTÍ, þær eru sanngirni, áreiðanleiki, samvinna og frumkvæði. Stjórnin hefur sett fram framtíðarsýn í einstökum málaflokkum  í viðkomandi stefnuskjölum sem eru hluti af gæðakerfi NTÍ og eru birt með tilvísunum síðar í skjali þessu. Stefnuskjölum fylgja tímasett markmið og leiðir.

 

Reglur, stefnur og samfélagsleg ábyrgð 

Starfsreglur stjórnar voru fyrst samþykktar 8. febrúar 2011. Þær eru endurskoðaðar reglulega og er 7. útgáfa þeirra endurskoðuð 4. september 2017. Reglurnar  kveða meðal annars á um hæfi stjórnarmanna, verkaskiptingu og skyldur stjórnarmanna. Reglurnar ná einnig yfir hlutverk og verksvið stjórnar og framkvæmdastjóra, fyrirsvar stjórnar félagsins, upplýsingagjöf til stjórnar, fundarsköp og fundargerðir og ákvörðunarvald stjórnar. Hlutverk stjórnar er að hafa eftirlit með því að starfsemi NTÍ sé í samræmi við  lög og reglur og hafa eftirlit með bókhaldi og ráðstöfun fjármuna NTÍ. Stjórnin hefur eftirlit með árangri og skilvirkni NTÍ og stuðlar að því að markmið NTÍ náist.  

Stjórn vann að endurskoðaðri heildstæðri endurskoðun á áhættustefnu NTÍ á árinu, sem samþykkt var í byrjun þessa árs. Með nýrri áhættustefnu eru þrír stærstu áhættuþættir í starfseminni skilgreindir sem; meðferð tjónamála, stýring eignasafns og tryggingafræðileg áhætta. Áhættustefnan er í anda samhæfðrar áhættustýringar COSO 2017, þar sem m.a. er fjallað um áhættumenningu, stefnumótun, áhættu við framkvæmd verkefna, upplýsingar um áhættu og skýrslugerð ásamt kröfum um innra eftirlit og áhættumælingar. Áhættustefnan var samþykkt á fundi stjórnar þann 30. janúar 2018.

Upplýsingaöryggisstefna VTÍ var útgefin í 5. útgáfu, 20. september 2018 og byggir hún á leiðbeinandi tilmælum FME nr. 2/2014 um upplýsingakerfi eftirlitsskyldra aðila.  

Ekki er í gildi sérstök stefna NTÍ varðandi samfélagslega ábyrgð en í skipulagi og umgjörð starfseminnar eru í gildi reglur sem ætlað er að tryggja rekstrarsamfellu og samfélagslegt öryggi þegar til náttúruhamfara kemur. Birtist þetta m.a. í reglum um fjárfestingarstarfsemi, fjárfestingarstefnu og viðbragðsáætlun NTÍ. 

Stjórn hefur ekki sett sér stefnu um fjölbreytileika í tengslum við stjórn. Stjórn gengur út frá því að þeir sem skipa í stjórnina fari eftir gildandi lögum á hverjum tíma.

Stjórn heldur sameiginlega fundi með innri og ytri endurskoðendum og endurskoðunarnefnd um innra eftirlit og áhættustýringu, með og án viðveru framkvæmdastjóra NTÍ. Mat stjórnar á eigin störfum fór síðast fram í september 2016 samkvæmt starfsreglum stjórnar og taldi stjórn sig hafa uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum og starfsreglum og að starf hennar hefði skilað tilætluðum árangri. Fyrirhugað er að fara í nánari vinnu við mat á störfum stjórnar á árinu 2018 í tengslum við stefnumótunarvinnu stjórnar. Árlega skilar endurskoðunarnefnd skýrslu til stjórnar um störf sín og leggur mat á eigin störf skv. góðum starfsháttum endurskoðunarnefnda.

Lög og reglugerð um NTÍ, starfsreglur stjórnar NTÍ, starfsreglur endurskoðunarnefndar og siðareglur NTÍ eru aðgengilegar ásamt fleiri stefnu- og gæðaskjölum NTÍ á www.vidlagatrygging.is

 

Stjórn Náttúruhamfaratryggingar Íslands frá 30. júní 2015 - 29. júní 2019

Stjórn NTÍ er skipuð fimm mönnum. Þrír eru kosnir af Alþingi. Vátryggingafélög er innheimta iðgjöld (SFF) velja einn stjórnarmann en fjármála- og efnahagsráðherra skipar formann. Stjórnarmenn eru skipaðir til fjögurra ára í senn. Stjórnina skipa: Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður, Adolf Guðmundsson, Lína Björg Tryggvadóttir, varaformaður, Vigdís Halldórsdóttir og Ragnar Þorgeirsson.

Varamenn í stjórn eru Erna Jónsdóttir, Steinar Harðarsson, Kristín Hálfdánardóttir, Bjarney Rut Jensdóttir og Jóna Björk Guðnadóttir. 

Stjórn Náttúruhamfaratryggingar Íslands telur að ákvæðum leiðbeininga um stjórnarhætti er varðar óhæði stjórnarmanna sé fullnægt. Stjórnarmenn eru allir óháðir stofnuninni og daglegum stjórnanda hennar. Stjórn Náttúruhamfaratryggingar Íslands fundaði 10 sinnum á árinu 2017.

 

Yfirlit um starfsreynslu og bakgrunn stjórnar- og varastjórnarmanna NTÍ:

Sigurður Kári Kristjánsson, fæddur 9. maí 1973 til heimilis í Reykjavík. Hann hefur gegn hlutverki stjórnarformanns Náttúruhamfaratryggingar Íslands frá árinu 2015 og er skipaður af ráðherra. Hann hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi frá 1999 og fyrir Hæstarétti Íslands árið 2017. Sigurður Kári var lögmaður á lögmannsstofunni Lex frá árinu 1998 til 2003, en það ár var hann kjörinn til setu á Alþingi sem þingmaður Reykvíkinga.  Frá árinu 2011 hefur Sigurður Kári verið sjálfstætt starfandi lögmaður og rekið lögmannsstofuna Lögmenn Lækjargötu í félagi við aðra.  Sigurður Kári hefur setið í fjölmörgum stjórnum og nefndum á vegum stjórnvalda.

Adolf Guðmundsson, fæddur 19. maí 1954, til heimilis á Seyðisfirði. Adolf var skipaður í stjórn Náttúruhamfaratryggingar Íslands af Alþingi árið 2007. Adolf lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1982 og hlaut héraðsdómsréttindi árið 1999. Hann hefur verið framkvæmdastjóri Gullbergs ehf. á Seyðisfirði undanfarin 34 ár en er nú rekstrarstjóri frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Adolf er stjórnarformaður Brimbergs ehf. á Seyðisfirði og stjórnarformaður Hótel Selfoss,  auk þess sem hann sinnir ýmsum öðrum trúnaðarstörfum. Adolf sat í bæjarstjórn Seyðisfjarðar  í 12 ár og er nú varabæjarfulltrúi á Seyðisfirði. Adolf hefur setið í hafnarstjórn frá árinu 1998 og nokkrum öðrum nefndum á vegum Seyðisfjarðarkaupstaðar. Adolf var formaður Landssambands Íslenskra útgerðarmanna (LÍÚ) í sex ár auk þess sem hann hefur setið í stjórnum á vegum LÍÚ ogverið stjórnarmaður í samtökum fiskvinnslustöðva. 

Ragnar Þorgeirsson, fæddur 23. janúar 1966, til heimilis í Reykjavík. Ragnar var skipaður í stjórn Náttúruhamfaratryggingar af Alþingi árið 2015, auk þess sem hann er fulltrúi stjórnar í endurskoðunarnefnd. Ragnar lauk B.A. prófi í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Álaborg í Danmörku 1997 og meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum, með áherslu á „Private-Public-Partnership“, frá sama skóla árið 2000.   Ragnar var stjórnarmaður, formaður endurskoðunarnefndar og síðar sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis ses. og útibússtjóri á Þórshöfn eftir sameiningu sparisjóða (2011-2015).  Ragnar var framkvæmdastjóri rekstrar, hjá endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækinu PricewaterhouseCoopers ehf. (2005-2011).  Einnig hefur hann sinnt lengri og skemmri viðskiptaþróunarverkefnum fyrir ýmis fyrirtæki og stýrt verkefnum á sviði rafrænna viðskipta- og stjórnsýslu á samstarfsvettvangi fyrirtækja og stofnanna.

Lína Björg Tryggvadóttir, fædd 17. júní 1971 til heimilis í  Ísafjarðarbæ. Lína Björg var skipuð í stjórn Náttúruhamfaratryggingar Íslands af Alþingi árið 2011 og er varaformaður stjórnar. Lína Björg lauk B.S. prófi  í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2006 með áherslu á viðskiptalögfræði og stjórnun. Lína Björg  vinnur sem verkefnastjóri við Byggðaþróunardeild Fjórðungssambands Vestfirðinga og hefur þar yfirumsjón með ýmsum verkefnum er lúta að uppbyggingu sveitarfélaganna níu. Hún var áður útibússtjóri Mótus á Ísafirði (2006-2013) og þar áður innkaupastjóri í húsgagnadeild Pennans í Hallarmúla. Hún situr í skipulagsnefnd Ísafjarðarbæjar og var áður varaformaður umhverfisnefndar. Hún sat einnig í bæjarstjórn Ísafjarðar í fjögur ár. Einnig hefur hún unnið að viðskipta –og uppbyggingarverkefnum bæði á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar (Nordregio) og með öðrum sveitarfélögum á Íslandi. 

 

Vigdís Halldórsdóttir, fædd 9. febrúar 1986, til heimilis í Garðabæ. Vigdís var skipuð í varastjórn árið 2011 eftir tilnefningu Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) og í aðalstjórn árið 2015. Vigdís lauk meistaragráðu frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2010. Hún starfar sem lögfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja og hefur verið hjá samtökunum frá árinu 2010. Helsta ábyrgðarsvið Vigdísar hjá samtökunum hefur verið á vátryggingasviði en einnig hefur hún  gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hönd samtakanna og situr einnig í stjórn Þjóðskrá Ísland. Hún starfaði áður m.a. hjá Vátryggingafélagi Íslands, kom að stofnun sprotafyrirtækisins Kolka- kolefnisviðskipti og ráðgjöf auk þess sem hún starfaði sem sjálfboðaliði fyrir Rauða Krossinn við réttindagæslu fyrir hælisleitendur. 

Varamenn í stjórn 

Erna Jónsdóttir, fædd 4. janúar 1976, til heimilis í Reykjavík. Hún er varamaður Sigurðar Kára Kristjánssonar. Hún hefur verið í varastjórn frá árinu 2011. Erna lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2008 og hefur starfað sem lögfræðingur á skrifstofu sjávarútvegs- og fiskeldis, í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá árinu 2014. Áður var hún á skrifstofu fjármálamarkaðar í sama ráðuneyti frá árinu 2011. Veturinn 2010-2011 stundaði Erna Evrópuréttarnám við kaþólska háskólann í Leuven. Erna starfaði sem lögfræðingur á skrifstofu innri markaðs hjá Eftirlitsstofnun EFTA frá september 2007 fram til september 2010. 

Kristín Hálfdánsdóttir, fædd 19.júlí 1956 í Bolungarvík, til heimilis á Ísafirði.  Hún er varamaður Adolfs Guðmundssonar. Kristín er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri.  Hún starfaði sem rekstrarstjóri Samskipa á Vestfjörðum á árunum 2000-2016, en í dag er hún skrifstofustjóri fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish ehf á Ísafirði. Hún er bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og situr einnig í umhverfisnefnd bæjarins. Hún hefur setið í stjórn eignarhaldsfélagsins Hvetjanda og í stjórn tölvufyrirtækins Snerpu ehf á Ísafirði.

 

Bjarney Rut Jensdóttir, fædd 4. nóvember 1976, til heimilis í Reykjanesbæ. Hún er varamaður Ragnars Þorgeirssonar. Bjarney lauk ML prófi frá Háskólanum á Bifröst í september 2011. Bjarney starfar sem vaktstjóri hjá Airport Associates á Keflavíkurflugvelli og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum og er ma. sitjandi formaður vinnumarkaðsráðs Suðurnesja, gjaldkeri Landsambands Framsóknarkvenna og situr í öryggistrúnaðarnefnd Airport Associates.

Jóna Björk Guðnadóttir, fædd 31. mars 1967 til heimilis í Reykjavík. Hún er varamaður Vigdísar Halldórsdóttur. Jóna Björk lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1994 og hefur starfað sem lögfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja frá 2008. Hún starfaði frá árinu 2006-2008 sem regluvörður Sparisjóðabanka Íslands. Frá 2001-2005 starfaði hún sem deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu, frá 1999 – 2000 starfaði hún sem framkvæmdastjóri Starfrækslunefndar gagnagrunns á heilbriðigðissviði. Að loknu lagaprófi starfaði hún sem fulltrúi sýslumannsins í Keflavík.  Jóna Björk er varamaður í endurkröfunefnd skv. 96. gr. umferðarlaga frá september 2015, varamaður í stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá mars 2012, situr í laganefnd European Banking Federation (EBF) frá apríl 2008 og situr í fastanefnd fjármálaráðuneytis um innlent regluverk á sviði verðbréfaviðskipta og verðbréfasjóða frá 2014.

Steinar Harðarson, fæddur 8. apríl 1944, til heimilis í Reykjavík. Hann er varamaður Línu Bjargar Tryggvadóttur. Steinar lauk sveinsprófi í bifreiðasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík 1964. Hann er véltæknifræðingur frá Polhems Tekniska skola, Gautaborg 1977. Hann starfaði sem svæðisstjóri hjá Vinnueftirliti ríkisins á árunum 1999-2014 og var forstöðumaður  framkvæmdasviðs Þórshafnarhrepps 1993-1999. Hefur tekið þátt í alþjóðlegum verkefnum fyrir Vinnueftirlitið og setið í starfshópum á vegum þess. Steinar hefur setið í vinnuhópum um gerð reglugerða á vinnuverndarsviði Félagsmálaráðuneytisins. Steinar hefur viðurkenningu Vinnueftirlitsins sem þjónustuaðili í vinnuvernd og starfar nú sem sjálfstæður vinnuverndarráðgjafi hjá Vinnuvernd og forvörnum ehf.

 

Starfsfólk 

Stjórn NTÍ ræður framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri NTÍ er Hulda Ragnheiður Árnadóttir, fædd árið 1971. Hulda hefur verið framkvæmdastjóri NTÍ frá árinu 2010. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar. Hulda Ragnheiður lauk meistaragráðu í bankastjórnun, fjármálum og alþjóðaviðskiptum árið 2008. Hún lauk B.Sc. í viðskiptafræði árið 2004 og Diploma í opinberri stjórnsýslu og stjórnun árið 2001. Hulda hefur einnig Diploma í góðum stjórnarháttum frá Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands. Hulda starfaði áður við innri endurskoðun í Kaupþingi/Arion banka, tímabundið í afleysingum sem bæjarstjóri Blönduóssbæjar og framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs Húsavíkurbæjar (nú Norðurþings). Áður hafði Hulda starfað bæði sem bóndi og kjólameistari, en hún útskrifaðist með sveinspróf í kjólasaum frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1991.
Starfsmenn eru fjórir auk framkvæmdastjóra; lögfræðingur, bókari, gæðafulltrúi og sérfræðingur í tjóna- og áhættumati, en heimild er fyrir sex stöðugildum.

 

Endurskoðunarnefnd 

Endurskoðunarnefnd starfar eftir starfsreglum á grundvelli IX. kafla A. í lögum um ársreikninga nr. 3/2006. Í 108. gr. er kveðið á um skyldu eininga tengdum almannahagsmunum að starfrækja endurskoðunarnefnd. Endurskoðunarnefnd NTÍ er skipuð þremur nefndarmönnum sem kosnir eru af stjórn félagsins. Hlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila, áhættustýringu og virkni innra eftirlits. Hún skal tryggja gæði ársreikninga og annarra fjárhagsupplýsinga stofnunarinnar og óhæði endurskoðenda þess. Endurskoðunarnefnd skipa, Sigurður Þórðarson, formaður. Auk hans eiga sæti í nefndinni Steinunn Guðjónsdóttir og Ragnar Þorgeirsson sem er einnig stjórnarmaður. Steinunn var skipuð í endurskoðunarnefnd á stjórnarfundi NTÍ 19. október 2017 í stað Auðar Daníelsdóttur sem setið hafði frá 2014 í nefndinni.

Starfsreynsla og bakgrunnur nefndarmanna í endurskoðunarnefnd:

Sigurður Þórðarson, fæddur 9. desember 1941, til heimilis í Hafnarfirði, fyrrverandi ríkisendurskoðandi. Hann hefur verið formaður endurskoðunarnefndar NTÍ frá árinu 2011. Hann var skipaður ríkisendurskoðandi 1992 og gengdi því starfi til 2008. Sigurður varð löggildur endurskoðandi árið 1982. Hóf störf í Ríkisendurskoðun 1973 til ársins 1982 er hann hóf störf í fjármálaráðuneytinu þar sem hann starfaði þar til hann var skipaður vararíkisendurskoðandi árið 1987. Hann hefur setið í fjölmörgum stjórnum og nefndum á vegum hins opinbera og Hafnarfjarðarbæjar. Frá því að hann lét af störfum sem ríkisendurskoðandi hefur hann verið formaður nokkurra endurskoðunarnefnda hjá stofnunum hins opinbera, lífeyrissjóða og fyrirtækja. Þá hefur hann setið í Endurskoðunarráði Viðreisnarsjóðs Evrópuráðsins í París í 3 ár og Evrópuráðsins  í Strasbourg í 6 ár. Kjörinn endurskoðandi EUROASI 2002 (Samtaka ríkisendurskoðenda í Evrópu) í 4 ár og er nú formaður Endurskoðunarnefndar Norræna fjárfestingarbankans í Helsinki.

 

Steinunn Guðjónsdóttir, fædd árið 1963, til heimilis í Reykjavík hefur starfað hjá Sjóvá frá árinu 1999. Samhliða starfi sínu hjá Sjóvá var hún fyrstu árin einnig með eigin rekstur sem tryggingastærðfræðingur nokkurra lífeyrissjóða. Síðustu ár hefur hún verið í fullu starfi hjá Sjóvá og gegnir þar hlutverki forstöðumanns trygginga- og tölfræðigreiningar. Steinunn gengdi áður starfi forstöðumanns áhættustýringar Sjóvár og stýrði innleiðingu Solvency II hjá Sjóvá. Steinunn lauk prófi í stærðfræði frá Háskólanum í Groningen í Hollandi árið 1988 og vann fram til ársins 1995 sem stærðfræðikennari við Menntaskólann við Sund, samhliða uppgjörs- og úrskurðarverkefnum fyrir lífeyrissjóði. Hún lauk prófi í tryggingastærðfræði frá Háskólanum í Amsterdam árið 1997.

 

Yfirlit um starfsreynslu og bakgrunn Ragnars Þorgeirssonar er að finna undir umfjöllun um stjórn NTÍ en hann tók sæti í endurskoðunarnefnd árið 2015.

Endurskoðunarnefnd fundar mánaðarlega og oftar ef þurfa þykir, fyrir utan tvo mánuði yfir sumartímann.  Nefndin fundaði 8 sinnum á árinu 2017. Áhersla endurskoðunarnefndar á árinu var eftirfylgni með reikningsskilum og birtingu upplýsinga, áhættustjórnun og innra eftirlit, fylgni við lög og reglur og eftirlit með innri og ytri endurskoðun. 

 

Persónuvernd

Ötullega hefur verið unnið að greiningu á fylgni við ný lög um Persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og aðgerðaráætlun útbúin í kjölfar greiningar með það að markmiðið að starfsemi NTÍ fylgi lögunum í hvívetna. Samningur hefur verið gerður við Deloitte um gloppugreiningu á fylgni við lögin og mun hún fara fram í októbermánuði 2018. Í öllu áhættumati NTÍ er sérstaklega metið hver áhætta sé með tilliti til Persónuverndar. Persónuverndarfulltrúi NTÍ er Auðbjörg Friðgeirsdóttir, audbjorg.fridgeirsdottir@is.pwc.com.

 

Fjárvarsla og eignastýring

Mikil áhersla er lögð á eignadreifingu í fjárfestingastefnu NTÍ. Samningar eru við Arion banka, Íslandssjóði, Íslensk verðbréf og Kviku um eignastýringu. Eignir eru bæði í innlendum og erlendum eignum og megináhersla lögð á áhættulitlar fjárfestingar þar sem öryggi er haft að leiðarljósi umfram ávöxtun eigna. Analytica hefur eftirlit með eignastýrendum og tekur saman mánaðarleg yfirlit um stöðu safnsins og fylgni við fjárfestingastefnu. Stjórn fær mánaðarlega samantekt um stöðu eignasafnsins til kynningar. Ársþriðjungslega er gerð ítarleg greiningarskýrsla og samanburður á frammistöðu eignastýrenda sem lögð er fyrir stjórn til umfjöllunar. Við vinnslu fjárfestingastefnu liggur ársframmistaða eignastýringarsafns fyrir til skoðunar og mats á þeim kostum sem stefnan er byggð á.   

 

Endurtryggingar

Endurtryggingasamningar eru gerðir í þeim tilgangi að draga úr áhættu stofnunarinnar. Stofnunin hefur keypt erlendar endurtryggingar fyrir árið 2017 sem byggja á tveimur samningum. Samningur nr. 1 hefur tvenns konar virkni. Annars vegar fyrir stakan atburð, allt að 25 milljörðum króna, með eigin áhættu að fjárhæð 10 milljörðum kr. Hins vegar er um að ræða uppsöfnunarákvæði í samningnum, þar sem nokkrir atburðir af ólíkum tegundum geta talið upp í 10 milljarða kr. eigin áhættu, hámark 25 milljarða króna. Samningur nr. 2 veitir vernd gegn mjög stórum einstökum atburðum þar sem endurtryggjendur greiða allt að 15 milljarða króna umfram það 25 milljarða tjón sem fyrri samningurinn tekur til ef um er að ræða stakan atburð. Að jafnaði eru í kringum 25 endurtryggjendur á samningum NTÍ um endurtryggingarvernd vegna áhættu í stóratburðum. Frá árinu 2014 hefur Aon Benfield séð um miðlun endurtrygginga. Endurnýjun endurtryggingasamninga fer fram í lok hvers árs fyrir komandi almanaksár. 

 

 

Skipulag NTÍ má finna í eftirtöldum gæðaskjölum:

Saga NTÍ

Skipurit Náttúruhamfaratryggingar Íslands

Starfsreglur stjórnar

Siðareglur Náttúruhamfaratryggingar Íslands 

Erindisbréf endurskoðunarnefndar

Reglur um innra eftirlit

Reglur um innri endurskoðun 

Gæðastefna

Skjalastefna

Upplýsingaöryggisstefna

Reglur um fjárfestingastarfsemi

Fjárfestingarstefna

Mannauðsstefna

Áhættustefna

Viðbragðsáætlun NTÍ (ekki til opinberrar birtingar)

 

Niðurlag 

Stjórnarháttayfirlýsing þessi hefur verið sett saman af stjórn og framkvæmdastjóra NTÍ eftir bestu vitund. Henni er ætlað að veita greinargóðar upplýsingar um stjórnarhætti stofnunarinnar til viðskiptavina, eftirlitsaðila, eiganda og annarra hlutaðeigandi. Kemur í stað stjórnarháttayfirlýsingar NTÍ, dags. 14. mars 2017.

Staðfest af stjórn Náttúruhamfaratryggingar Íslands 20.9.2018