Saga NTÍ

Náttúruhamfaratrygging Íslands tók til starfa 1. september 1975 skv. lögum nr 52/1975, en var þá nefnd Viðlagatrygging Íslands.
Löngum var ljóst að kæmi til meiriháttar náttúruhamfara hérlendis yrði það stór baggi á sameiginlegum sjóðum landsmanna. Þegar á sjöunda áratugnum vaknaði sú hugmynd meðal vátryggingamanna að taka upp náttúruhamfaratryggingu samfara skyldubrunatryggingu. Var þá einkum horft til norsku náttúruhamfaratryggingalaganna frá 1961. Þessari hugmynd óx fiskur um hrygg með eldgosinu á Heimaey 1973 er sérstakur Viðlagasjóður var settur á stofn og ennfremur er snjóflóðið mikla varð á Neskaupstað 1974.
Þann 30. desember 1974 skipaði tryggingamálaráðherra nefnd (Ásgeir Ólafsson forstjóri, form, Benedikt Sigurjónsson, hæstaréttardómari, Bjarni Þórðarson, tryggingafræðingur) til að "gera tillögur um fyrirkomulag skyldutrygginga er bæti tjón á húseignum og lausafé af völdum náttúruhamfara...og semja frumvarp til laga um slíkar tryggingar."
Samdi nefndin í kjölfarið frumvarp til laga um Viðlagatryggingu er lagt var fyrir alþingi þá um vorið og varð að lögum þann 27. maí 1975. Má segja að lögunum svipi mest til áðurnefndra norskra laga um náttúruhamfaratryggingu. Viðlagatrygging tók við eignum og skuldum Viðlagasjóðs sem hætti endanlega starfsemi árið 1978. 1. júlí 2018 tók gildi breyting á lögum nr. 55/1992 þar sem nafni stofnunarinnar var breytt í Náttúruhamfaratrygging Íslands, skammstafað NTÍ. Helstu breytingarnar voru þær að eigin áhætta var lækkuð samfara hækkun lágmarks eigin áhættu, tjónþola var gert skylt að nýta tjónabætur til viðgerða á skemmdum eignum og úrskurðarhlutverk stjórnar var afnumið.
Tilgangurinn með því að koma á fót sérstakri náttúruhamfaratryggingu var einkum sá, samkvæmt greinargerð nefndarinnar er fyrstu lögin samdi, "að vera fyrirfram viðbúinn með fjármagn og reglur hvernig bæta skuli, ef menn verða fyrir eignatjóni af völdum náttúruhamfara, og um leið að tryggt sé, að allir sitji við sama borð í þessu efni. Tjónið, sem einstaklingur líður af völdum náttúruhamfara, er jafn tilfinnanlegt fyrir hann, hvort heldur hann verður einn fyrir því eða fleiri samtímis."
Er allt þetta enn í fullu gildi.

Meginatriði starfseminnar
Eftirfarandi meginatriði náttúruhamfaratryggingarfyrirkomulagsins hafa verið óbreytt frá upphafi.

Ef húseign eða lausafé er brunatryggt þá fylgir náttúruhamfaratrygging.
Einungis er tryggt gegn beinu tjóni á hinu tryggða af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða.
Iðgjald er 0,25‰ af vátryggingarfjáhæð sem er jafnhá brunatryggingarfjárhæð.
Vátryggingafélögin innheimta iðgjöldin

Þar sem foktryggingar voru, ólíkt öðrum náttúruhamfaratryggingum, nokkuð algengar á almennum markaði þótti ekki þörf á því að náttúruhamfaratryggja gegn ofviðri.                                
Með lögum nr 88/1982 bættist við náttúruhamfaratrygging á ýmsum mannvirkjum er ekki var venja að brunatryggja svo sem ýmis veitumannvirki, brýr og hafnir. Þá var jafnframt gert skylt að náttúruhamfaratryggja ræktað land og lóðir en það reyndist ókleift að ná utan um innheimtu iðgjalda á þessar eignir, (t.d. vegna dreifðs eignarhalds og lágra vátryggingafjárhæða á ræktuðu landi) og var þessi tryggingarskylda felld niður með lögum nr 55/1992. Þar var einnig  heimilað að vátryggja þessi sértryggðu mannvirki annars staðar en hjá NTÍ. Áður hafði t.d. Landsvirkjun tryggt sín veitumannviki sérstaklega skv. þar að lútandi samkomulagi. Árið 1995 bættust síðan skíðalyftur í hóp náttúruhamfaratryggðra mannvirkja. NTÍ innheimtir sjálf iðgjöld af þessum mannvirkjum og fylgir því nokkur umsýsla.
Ríkissjóður var eftir sem áður fjárhagslegur bakhjarl ef stórfelldur atburður yrði  (og því þótti m.a. eðlilegt að  NTÍ yrði opinber stofnun) en vátryggingarfyrirkomulagið gerði kleift að kaupa endurtryggingu til að jafna áhættunni á milli félaga og landa. Þá  hefur NTÍ frá upphafi haft lántökuheimild með ríkisábyrgð til að standa straum af skuldbindingum sínum umfram eignir og endurtryggingu.
Árin 1975-1992 þegar NTÍ var að vaxa fiskur um hrygg, endurtryggði ríkissjóður án iðgjalds hluta af áhættunni en jafnframt var keypt endurtryggingarvernd á erlendum markaði. Með nýjum lögum 1993 jókst bæði bótaskylda NTÍ (sem hlutfall af vátryggingarfjárhæðum úr 5‰ í 10‰ í áföngum) og ríkissjóður hætti sem endurtryggingaraðili. Áfram var keypt erlend endurtryggingarvernd (og við hana aukið eftir því sem markaðsaðstæður hafa leyft). Í fyrsta og eina sinn í sögunni kom til þátttöku endurtryggjenda í Suðurlandsskjálftanum 2008.

Helstu tjónsatburðir og fyrirkomulag tjónamats


1976, Jarðskjálfti við Kópasker
1983, Krapaflóð Patreksfirði
1984, Sjávarflóð Akranesi
1990, Sjávarflóð Eyrarbakki, Stokkseyri og víðar
1995, Snjóflóð Súðavík og Flateyri
1996, Jökulhlaup Skeiðarársandi
2000, Suðurlandsskjálftar 17. og 21. júní.
2008, Suðurlandsskjálfti  29. maí
2010, Eldgos Eyjafjallajökli
2011,  Eldgos Grímsvötnum

Upphaflega var ráð fyrir gert að tryggingafélögin önnuðust að jafnaði uppgjör tjóna hjá sínum viðskiptavinum í smærri tjónstilfellum, enda var sú skipan fram á tíunda áratuginn að sveitarfélög sömdu um brunatryggingar húseigna fyrir alla húseigendur. Síðar varð sú skipan algengari, einkum í jarðaskjálftatjónum, að mat var í höndum sérhæfðra burðarþolsfróðra matsmanna.
Hefur NTÍ ennfremur átt náið samstarf við matsdeildir vátryggingafélaganna, sem meðal annars mátu og gerðu upp lausafjártjón í Suðurlandsskjálftum. Þá komst á samstarf við Matsmannafélag Íslands og stóð NTÍ ásamt  félaginu að námskeiði í tjónamati vegna náttúruhamfara vorið 2008 skömmu fyrir jarðskjálftann 29. maí.

Stjórnarformenn og framkvæmdastjórar
Stjórnarformenn hafa verið: Ásgeir Ólafsson 1975-1985; Einar B. Ingvarsson 1985-1991; Guðmundur Þ. B. Ólafsson 1991-1995; Jón Ingi Einarsson 1995-2007; Torfi Áskelsson 2007-2011; Guðrún Erlingsdóttir 2011-2015; Sigurður Kári Kristjánsson frá 2015.
Framkvæmdastjóri var fyrst ráðinn í hlutastarf 1981. Framkvæmdastjórar: Ásgeir Ólafsson 1981-1986; Geir Zoega 1986-2000; Ásgeir Ásgeirsson 2000-2010; Hulda Ragnheiður Árnadóttir frá árinu 2010.

Aðsetur
Árin 1975-1981 hafði NTÍ aðsetur hjá Brunabótafélagi Íslands, Laugavegi 103, Reykjavík; 1981-1984 var sjálfstæð skrifstofa NTÍ í Hafnarstæti 11; 1984-1987 á Suðurlandsbraut 14; 1987-2010 á Laugavegi 162; frá árinu 2010 í Borgartúni 6. Í desember 2014 flutti starfsemin í Hlíðasmára 14 í Kópavogi.
Í kjölfar Suðurlandsskjálfta 2000 og 2008 rak NTÍ  um skeið þjónustuskrifstofu á Selfossi; auk þess tjónamatsstöðvar á Hellu (2000) og í Hveragerði (2008).

Varsla fjármuna og reikningshald
Árin 1975-1992 annaðist Seðlabanki Íslands vörslu fjármuna NTÍ svo og bókhald og reikningshald. Aðalendurskoðandi Seðlabankans var jafnframt endurskoðandi NTÍ.
Með gildistöku nýrra laga um NTÍ nr. 55/1992, 1. janúar 1993 hóf stjórn NTÍ vörslu og ávöxtun fjár stofnunarinnar.  Árið 2001 var samið um fjárvörslu við þrjá aðila. Nú annast Arionbanki, Íslandssjóðir, Íslensk verðbréf og Landsbankinn eignastýringu skv. fjárfestingarstefnu stjórnar NTÍ. 

Árið 1993 varð Ólafur Nilsson (Endurskoðun hf síðar KPMG) endurskoðandi NTÍ,  Margrét Guðjónsdóttir (KPMG) tók við árið 2005-2009, Helgi Arnarson (KPMG) frá 2010-2012, Sævar Þ. Sigurgeirsson (Endurskoðendaþjónustan ehf.) frá 2013-2015, Hinrik Gunnarsson (Endurskoðendaþjónustan ehf.) frá 2016-2017 og árið 2018 varð Jóhann Óskar (Deloitte) endurskoðandi NTÍ. 

Lagabreytingar árið 2018
1. júlí 2018 tóku gildi breytingalög nr. 46/2018. Nafni stofnunarinnar var breytt úr Viðlagatrygging Íslands í Náttúruhamfaratrygging Íslands, skammstafað NTÍ. Helstu breytingarnar voru þær að eigin áhætta tjónþola var lækkuð úr 5% í 2%, en samhliða því voru lágmarkasfjárhæðir eigin áhættu hækkaðar. Breytingin var til hagsbóta fyrir þá sem verða fyrir meiri háttar tjóni á kostnað þeirra sem verða fyrir minniháttar tjóni. Einnig var lögfest að tjónþoli skuli nota vátryggingarbætur til viðgerða á húseignum. Þegar tjón er lægra en 15% af vátryggingarfjárhæð og varðar ekki öryggi og hollustuhætti er tjónþola gert að ráðstafa sjálfum tjónabótum til viðgerða eða endurbóta á húseigninni. Að öðrum kosti greiðir NTÍ bætur eftir framvindu viðgerða líkt og gert er í brunatjónum. Ennfremur var úrskurðarhlutverk stjórnar fellt út og kveðið á um sérfræðiþekkingu úrskurðarnefndarmanna.