Náttúruhamfaratryggingar


Hvaða atburðir eru tryggðir?

Skv. lögum nr. 55/1992 um NTÍ skal stofnunin vátryggja gegn beinu tjóni af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða.

Hvaða eignir eru tryggðar?

Skylt er að vátryggja allar húseignir og lausafé sem er brunatryggt hjá vátryggingafélagi sem starfsleyfi hefur hér á landi og sjá vátryggingarfélögin um innheimtu iðgjalda fyrir hönd stofnunarinnar.

Einnig er skylt að vátryggja neðangreind mannvirki þótt þau séu ekki brunatryggð: 
   1. Hitaveitur, vatnsveitur og skolpveitur í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs.
   2. Hafnarmannvirki í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs.
   3. Brýr sem eru 50 m eða lengri.
   4. Raforkuvirki, þar á meðal dreifikerfi, stíflur og veitumannvirki, í eigu hins opinbera.
   5. Síma- og fjarskiptamannvirki í eigu hins opinbera.
   6. Skíðalyftur.

Mannvirki, sem reist er gegn banni yfirvalda eða andstætt ákvæðum í settum rétti þannig að ætla má að mannvirkinu sé af þeirri ástæðu hættara við skemmdum af náttúruhamförum en ella, er óheimilt að náttúruhamfaratryggja hvort sem það er brunatryggt eða ekki.

Hver er fjárhæð vátryggingarinnar?

Allir munir (húseignir og lausafé), sem brunatryggðir eru, skulu náttúruhamfaratryggðir fyrir sömu fjárhæð og brunatryggingin nemur á hverjum tíma.

Ofangreind mannvirki, skulu vátryggð fyrir áætlað enduröflunarverð (endurbyggingarverð) þeirra eins og það er fyrsta dag hvers ársfjórðungs. Áætlað enduröflunarverð skal miðað við nýbyggingarkostnað sambærilegra eigna og skal þar taka tillit til nýjustu tækniþekkingar, verkþekkingar og efniskostnaðar.

Eigendur mannvirkjanna, skulu fyrir 1. mars ár hvert senda stofnuninni skrá um ný mannvirki og breytingar á eldri mannvirkjum, ásamt áætlun um enduröflunarverð þeirra miðað við verðlag 1. janúar næstan á undan. Ef ástæða er til að ætla að áætlun sé óraunhæf eða eigendur mannvirkja hafi vanrækt að láta í té upplýsingar um muni, sem skylt er að vátryggja, getur stofnunin kvatt tvo sérfróða menn til þess að meta muni þessa og er niðurstaða mats þeirra þá bindandi sem vátryggingarfjárhæð.

Hver er eigin áhætta vátryggðs?

Eigin áhætta vátryggðs skal vera 2% af hverju tjóni, þó eigi lægri fjárhæð en hér segir: 
   1. Vegna lausafjár, 200.000 kr.
   2. Vegna húseigna, 400.000 kr.
   3. Vegna mannvirkja, 1.000.000 kr.

Árleg iðgjöld skal reikna sem hér segir: 
   1. Af lausafé, 0,25‰.
   2. Af húseignum, 0,25‰.
   3. Af mannvirkjum, 0,20‰.