Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd er skipuð af stjórn stofnunarinnar til að sinna tilteknum verkefnum á ábyrgðarsviði stjórnarinnar. Endurskoðunarnefndin skal hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila til að auka traust og öryggi á fjárhagslegum upplýsingum.

Megin hlutverk endurskoðunarnefndar er:

  • mat á eftirlitsumhverfi stofnunarinnar og fyrirkomulagi áhættustýringar.
  • greining á virkni innri endurskoðunar, eftirlit með framkvæmd endurskoðunar og gerð tillögu um val á ytri endurskoðanda ásamt mati á óhæði endurskoðanda.
  • tryggja fylgni við gildandi lög og reglur.
Sigurður Þórðarson
formaður, fæddur 9. desember 1941, til heimilis í Hafnarfirði, fyrrverandi ríkisendurskoðandi. Hann hefur verið formaður endurskoðunarnefndar NTÍ frá árinu 2011. Hann var skipaður ríkisendurskoðandi 1992 og gegndi því starfi til 2008. Sigurður varð löggildur endurskoðandi árið 1982. Hóf störf í Ríkisendurskoðun 1973 til ársins 1982 er hann hóf störf í fjármálaráðuneytinu þar sem hann starfaði þar til hann var skipaður vararíkisendurskoðandi árið 1987. Hann hefur setið í fjölmörgum stjórnum og nefndum á vegum hins opinbera og Hafnarfjarðarbæjar. Frá því að hann lét af störfum sem ríkisendurskoðandi hefur hann verið formaður nokkurra endurskoðunarnefnda hjá stofnunum hins opinbera, lífeyrissjóða og fyrirtækja. Sigurður var skipaður í endurskoðunarnefnd Norræna Fjárfestingarbankans (NIB) 2014 til 4ja ára þar af sem formaður síðustu tvö árin. Þá hefur hann setið í Endurskoðunarráði Viðreisnarsjóðs Evrópuráðsins í París í 3 ár og Evrópuráðsins í Strasbourg í 6 ár. Sigurður var kjörinn endurskoðandi EUROASI 2002.

Steinunn Guðjónsdóttir, fædd árið 1963, til heimilis í Reykjavík hefur starfað hjá Sjóvá frá árinu 1999. Samhliða starfi sínu hjá Sjóvá var hún fyrstu árin einnig með eigin rekstur sem tryggingastærðfræðingur nokkurra lífeyrissjóða. Síðustu ár hefur hún verið í fullu starfi hjá Sjóvá og gegnir þar hlutverki forstöðumanns trygginga- og tölfræðigreiningar. Steinunn gegndi áður starfi forstöðumanns áhættustýringar Sjóvár og stýrði innleiðingu Solvency II hjá Sjóvá. Steinunn lauk prófi í stærðfræði frá Háskólanum í Groningen í Hollandi árið 1988 og vann fram til ársins 1995 sem stærðfræðikennari við Menntaskólann við Sund, samhliða uppgjörs- og úrskurðarverkefnum fyrir lífeyrissjóði. Hún lauk prófi í tryggingastærðfræði frá Háskólanum í Amsterdam árið 1997.

Ragnar Þorgeirsson, 
fæddur 23. janúar 1966, til heimilis í Reykjavík. Ragnar var fyrst skipaður í stjórn NTÍ af Alþingi árið 2015, auk þess sem hann er fulltrúi stjórnar í endurskoðunarnefnd. Ragnar lauk B.A. prófi í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Álaborg í Danmörku 1997 og meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum, með áherslu á „Private-Public-Partnership“, frá sama skóla árið 2000. Ragnar var stjórnarmaður, formaður endurskoðunarnefndar og síðar sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis ses. og útibússtjóri á Þórshöfn eftir sameiningu sparisjóða (2011-2015). Ragnar var framkvæmdastjóri rekstrar, hjá endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækinu PricewaterhouseCoopers ehf. (2005-2011). Einnig hefur hann sinnt lengri og skemmri viðskiptaþróunarverkefnum fyrir ýmis fyrirtæki og stýrt verkefnum á sviði rafrænna viðskipta- og stjórnsýslu á samstarfsvettvangi fyrirtækja og stofnanna.