Um NTÍ

Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) starfar skv. sérlögum nr. 55/1992 með áorðnum breytingum og reglugerð nr. 700/2019.

Stjórn og starfsfólk

Stjórn NTÍ er skipuð fimm mönnum. Þrír eru kosnir af Alþingi. Vátryggingarfélög er innheimta iðgjöld velja einn stjórnarmann en fjármála- og efnahagsráðherra skipar formann. Stjórnarmenn eru skipaðir til fjögurra ára í senn. Stjórnina skipa: Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður, Jóna Björk Guðnadóttir, Lína Björg Tryggvadóttir, Ragnar Þorgeirsson og Steinar Harðarson.

Stjórn NTÍ ræður framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri er Hulda Ragnheiður Árnadóttir.

Hjá NTÍ starfa einnig Jón Örvar Bjarnason sérfræðingur í tjóna- og áhættumati, Jónína Pálsdóttir bókari/þjónustufulltrúi og Tinna Hallbergsdóttir upplýsingatækni- og þjónustustjóri.

Náttúruhamfaratrygging

Náttúruhamfaratrygging er lögbundin og bætir beint tjón á tryggðum eignum af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Náttúruhamfaratrygging fylgir brunatryggingu húseigna sem er lögbundin skyldutrygging eins og náttúruhamfaratrygging. Sé lausafé tryggt gegn bruna hvort heldur með sérstakri lausafjártryggingu eða samsettri lausafjártryggingu, er innifelur bætur af völdum eldsvoða og flokkast undir eignatryggingar, þá fylgir einnig náttúruhamfaratrygging. Vátryggingaupphæð náttúruhamfaratryggingar eru sú sama og viðkomandi brunatryggingar en tryggingarskilmálar eru aðrir.

Þá eru brýr, hafnir, skíðalyftur og ýmis veitumannvirki í opinberri eigu náttúruhamfaratryggðar þótt þær séu ekki brunatryggðar.

Iðgjald og innheimta

Iðgjald af náttúruhamfaratryggingu húseigna og lausafjár er 0,25‰ af vátryggingaupphæð.

Vátryggingarfélög annast innheimtu náttúruhamfaratryggingariðgjalds jafnframt innheimtu iðgjalds vegna brunatrygginga og hefur þá náttúruhamfaratryggingin sömu gjalddaga og viðkomandi brunatrygging.

Iðgjald af mannvirkjum er 0,20‰ og er innheimt af NTÍ.

Tjón af völdum náttúruhamfara

Sé talið að bótaskylt tjón hafi orðið af völdum fyrrgreindra náttúruhamfara ber að tilkynna það tafarlaust til NTÍ.

Eigin áhætta

Eigin áhætta vátryggðs er 2% af hverju tjóni. Þó eigi lægri upphæð en kr. 200.000 fyrir innbú og lausafé og kr. 400.000 fyrir fasteign.

Lágmarks eigin áhætta annarra mannvirkja en húseigna er kr. 1.000.000.

Ágreiningur um bótaskyldu

Ágreiningi um hvort bótaskylt tjón hafi orðið eða um fjárhæð vátryggingarbóta má skjóta til sérskipaðrar úrskurðarnefndar.

Tjónamat

Fjögur fyrirtæki hafa gert samninga við NTÍ um tjónamat, Efla hf, Mannvit hf, Verkís ehf og VSÓ hf. Einnig hafa aðrir aðilar tekið að sér tilfallandi matsverkefni fyrir NTÍ. Tjónstilkynningar berast á skrifstofu NTÍ sem felur matsmönnum að meta tjón og skila inn matsskýrslum með upplýsingum um tjónin.

Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd er skipuð þremur fulltrúum. Formaður er Sigurður Þórðarson, auk hans eiga sæti í nefndinni Steinunn Guðjónsdóttir og Ragnar Þorgeirsson sem er einnig stjórnarmaður.

Innri endurskoðun

Samningur um innri endurskoðun við PWC er í gildi vegna áranna 2017-2019.

Endurskoðun reikninga

Jóhann Óskar Haraldsson, löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte er endurskoðandi ársreikninga NTÍ valinn af Ríkisendurskoðun. 

Persónuvernd

Auðbjörg Friðgeirsdóttir, audbjorg.fridgeirsdottir@is.pwc.com, hjá PWC er persónuverndarfulltrúi NTÍ.

Fjárvarsla og eignastýring

NTÍ hefur gert samninga við Arion banka, Íslandssjóði, Íslensk verðbréf og Landsbankann um eignastýringu. Analytica hefur eftirlit með eignastýrendum og tekur saman mánaðarleg yfirlit um stöðu safnsins og fylgni við fjárfestingastefnu. Ársþriðjungslega er gerð ítarleg greiningarskýrsla og samanburður á frammistöðu eignastýrenda sem lögð er fyrir stjórn til umfjöllunar. Stjórn fær mánaðarlega samantekt um stöðu eignasafns til kynningar.

Endurtryggingar

Á bilinu 20-30 aðilar  eru endurtryggjendur á samningum NTÍ um endurtryggingarvernd vegna áhættu í stóratburðum. Umboðsmaður gagnvart endurtryggjendum um miðlun endurtrygginga er Aon. Endurnýjun endurtryggingarsamninga er yfirleitt í nóvember mánuði ár hvert en gildistími almanaksárið.

Stefna

Það er stefna NTÍ að öll starfsemi NTÍ fylgi lögum og reglugerðum sem um stofnunina gilda og að tryggja samkvæmni og jafnræði í afgreiðslum stofnunarinnar.