Viðbragðsáætlun

Á árunum 2012-2014 var unnin heildstæð viðbragðsáætlun við náttúruhamförum fyrir NTÍ.

Verkefnisstjórar voru Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri NTÍ og Jón Örvar Bjarnason, byggingarverkfræðingur.

Til að viðbragðsáætlunin væri sem best úr garði gerð var leitað þekkingar á ýmsum stöðum og sviðum. Þar má helst nefna þátttöku Almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra í gerð áætlunarinnar, en starfsfólk deildarinnar býr yfir djúpri þekkingu á viðbragðsáætlanagerð og skipulagi verkefna í kjölfar áfalla og vátryggingaratburða. Einnig var þekking sótt til starfsmanna NTÍ, þeirra matsmanna sem hafa mesta reynslu af matsstörfum fyrir NTÍ, starfsmanna Veðurstofu Íslands og fræðimanna í Háskóla Íslands auk starfsmanna almennu vátryggingafélaganna. Meðan á verkefninu stóð var áhersla lögð á að hagsmunaaðilar, s.s. ráðuneyti og FME væru upplýstir um framvindu verkefnisins og hefðu tækifæri til að koma að ábendingum og athugasemdum eftir því sem ástæða var til. Án þeirrar breiðu samvinnu sem náðist um verkefnið hefði áætlunin aldrei orðið til.

Mikilvægt er að hafa í huga að viðbragðsáætlunin tekur einungis til viðbragða starfsmanna NTÍ við náttúruhamförum þar til jafnvægi hefur náðst að nýju  í rekstrinum. Ekki er fjallað um verkefni og skyldur annarra viðbragðsaðila.

Ljóst má vera að sviðsmyndir eru ekki lýsing á væntanlegum atburðum, heldur einungis aðferð sem notuð er til að meta umfang mögulegra atburða og áhrif þeirra á NTÍ. Val á sviðsmyndum fór fram í samvinnu við sérfræðinga frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Valið byggði að mestu leyti á reynslu og þekkingu þeirra sem að matinu komu, en til stuðnings voru unnin gögn sem lágu til grundvallar að endanlegum ákvörðunum um sviðsmyndir. Horft var á mögulega atburði út frá tveimur megin sjónarhornum, annars vegar hversu líklegir atburðirnir eru til að verða (byggt á endurkomutíma) og hins vegar hvaða atburðir væru líklegir til að reyna verulega á þolmörk í starfsemi stofnunarinnar, óháð líkum á atburðum.