Verklagsreglur í tjónamálum

Þegar tjón hefur verið tilkynnt fer NTÍ yfir tilkynninguna og metur hvort nægilegar upplýsingar liggi fyrir til að senda tilkynninguna til matsmanna sem annast tjónamat.

Ef tilkynning uppfyllir ekki þau skilyrði sem sett eru til tjónamats er eiganda gert viðvart og honum gefið tækifæri til frekari upplýsingagjafar. Uppfylli tjónstilkynning skilyrði til tjónamats eru óháðir matsmenn kallaðir til. Allir matsmenn þurfa að meta óhæði sitt áður en þeir taka að sér tjónamat, til að tryggja að þeir geti lagt hlutlaust mat á það tjón sem tilkynnt er að hafi orðið.

Sex fyrirtæki hafa samning um matsmenn í matsstörf fyrir NTÍ þar sem skýrt er kveðið á um að matsmenn skulu leggja hlutlaust og óháð mat á það tjón sem tilkynnt er um. Eftir að matsmenn hafa fengið beiðni um tjónamat hafa þeir samband við eiganda og bóka tíma til tjónaskoðunar. Matsmenn vinna síðan matsgerð (skýrsla sem lýsir aðstæðum og tjóni) sem þeir senda NTÍ að tjónamati loknu.

NTÍ sendir matsgerðina til eiganda ásamt kynningarbréfi, með upplýsingum um með hvaða hætti eigandi getur komið að sínum ábendingum og athugasemdum vegna matsins ef þarf. Ef engar athugasemdir berast er gengið frá uppgjöri á grundvelli matsgerðarinnar og bætur vegna tjónsins greiddar inn á uppgefin bankareikning eigenda í þeim hlutföllum sem eignarhluti þeirra gefur tilefni til. Geri eigandi athugasemdir er brugðist við þeim eftir því sem við á.

Í sumum tilvikum eru matsmenn beðnir um að endurskoða matsniðurstöðu en í öðrum getur komið til annarra úrræða. Eigandi er ávallt upplýstur með formlegum hætti um stöðu máls hverju sinni og uppgefna fresti til aðgerða vegna málsins.

NTÍ hefur innleitt gæðakerfi sem inniheldur fjölmargar verklagsreglur sem gilda um starfsemina, en eftirfarandi verklagsreglur eru þær sem helst tengjast meðferð tjónamála.

Verklagsregla um feril tjóna

Verklagsregla um innihald matsgerða

Verklagsregla um innihald minnisblaða og viðauka við matsgerðir

Verklagsregla um val á matsmönnum

Athugasemdir við matsgerðir (eyðublað)