Tjón

Ef tjón hefur orðið á vátryggðum eignum er nauðsynlegt að tilkynna það eins fljótt og hægt er eftir að tjón hefur orðið. Þetta er gert með því að fylla út tjónstilkynningu hér á vefnum. Tjónstilkynning þarf að berast rafrænt í gegnum tilkynningakerfi á heimasíðu svo ekki verði tafir á afgreiðslu málsins. Einnig þarf að merkja við hvort óskað er eftir rafrænum samskiptum eða pappírssamskiptum við meðferð málsins. Þegar skráning hefur farið fram verður tjónstilkynning tekin til afgreiðslu. Hér má finna leiðbeiningar fyrir tilkynningar vegna eigna sem eru í eigu lögaðila. . Frekari leiðbeiningar við skráningu tjónstilkynningar eru veittar hjá NTÍ í síma 575-3300. Athugið að ef tjón er bæði á fasteign og á lausafé þarf að skila inn tveimur aðskildum tilkynningum.

Vakin er athygli á því að vátryggður getur glatað rétti sínum til bóta vegna tómlætis ef hann tilkynnir ekki um kröfu sína innan árs frá því að hann vissi um atvik sem hún er reist á.

Þegar tilkynning hefur verið móttekin er greint hvort hún uppfylli skilyrði til tjónamats og ef svo er, fer málið áfram til matsmanns til skoðunar. Ef greining leiðir í ljós að tilkynning uppfylli ekki skilyrði til tjónamats er send tilkynning þess efnis til eiganda eignarinnar og honum gefinn kostur á að koma frekari upplýsingum að.

Eftir að tjónstilkynning hefur verið skráð í kerfi okkar er hægt að fylgjast með stöðu málsins í gegnum mínar síður.

Áður en tjónamat er framkvæmt er haft samband við skráða eigendur eignarinnar (eða tengilið vegna tjónsins hafi hann verið skráður) og bókaður tími í tjónaskoðun. Eigandi eignarinnar eða fulltrúi hans hefur ávallt rétt á að vera viðstaddur skoðun. Þegar matsmenn NTÍ mæta á staðinn skulu þeir vera merktir NTÍ. Varast skal að veita utanaðkomandi aðgang að eignum yðar ef þeir geta ekki sannað deili á sér með framvísun starfsmannaskírteina sem staðfesta störf þeirra í nafni NTÍ.

Eftir að tjónamat hefur verið framkvæmt skrifa matsmenn matsgerð og skila til NTÍ. Þegar matsgerð hefur borist NTÍ er hún svo send eigendum eignarinnar til kynningar. Ef eigendur eru ósáttir við efni og niðurstöðu matsgerðar hafa þeir tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvörðun er tekin um bótaskyldu og eftir atvikum, bótafjárhæð. Hér má sjá verklagsreglu um feril tjóna sem lýsir hefðbundnu ferli tjónamála frá tilkynningu tjóns til lokaafgreiðslu málsins.