Fréttatilkynning
Hlutverk NTÍ er að vátryggja gegn tjóni af völdum náttúruhamfara vegna eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Skylt er að vátryggja allar fasteignir á Íslandi gegn náttúruhamförum og er iðgjald vegna þeirrar vátryggingar innheimt samhliða innheimtu brunatrygginga hjá almennu vátryggingafélögunum. Því eru allar fasteignir á Íslandi vátryggðar gegn framangreindum atburðum. Af gefnu tilefni er rétt að taka fram að foktjón eru ekki vátryggð hjá NTÍ. Lausafé sem vátryggt er brunatryggingu hjá almennu vátryggingafélögunum nýtur einnig náttúruhamfaratryggingar. Einnig njóta mannvirki í eigu opinberra aðila sem tilgreind eru í 5. gr. laga nr. 55/1992 um NTÍ, vátryggingaverndar.

Vátryggingavernd hjá NTÍ vegna vatnsflóða er ekki algild um öll vatnsflóð. Því hefur verið skilgreint í reglugerð hvers konar vatnsflóð teljast til þeirra náttúruhamfara sem vátryggt er gegn skv. lögum um NTÍ.

Úr 5. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 700/2019:
„flóð verða vegna þess að ár eða lækir sem renna að staðaldri flæða skyndilega yfir bakka sína eða flóðbylgjur frá sjó eða vötnum ganga skyndilega á land og valda skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum eignum. Það er einnig vatnsflóð þegar skyndileg flóð koma frá jökli vegna bráðnunar íss. Flóð vegna úrkomu og leysingavatns sem falla ekki undir 1. málsl. teljast ekki vatnsflóð…“

NTÍ beinir þeim tilmælum til allra sem telja sig hafa orðið fyrir bótaskyldu tjóni af völdum náttúruhamfara skv. því sem fram kemur hér að ofan, að tilkynna það sem allra fyrst til NTÍ. Í öðrum tilvikum beinir NTÍ þeim tilmælum til viðskiptavina að athuga hvort að það tjón sem kann að hafa orðið njóti vátryggingaverndar hjá vátryggingafélagi viðkomandi.

Þegar NTÍ hefur borist tilkynning um tjón sem ætla má að náttúruhamfaratrygging taki til gerir hún ráðstafanir svo fljótt sem unnt er til að fá úr því skorið hvort bæta skuli tjónið og eftir atvikum láta meta það. Gert er ráð fyrir að haft verði samband við tjónþola innan nokkurra daga frá því að tjónstilkynning berst NTÍ, eftir því sem við á.

Tjónstilkynningar skulu berast skriflega í gegnum heimasíðu NTÍ, www.nti.is.  Mikilvægt er að vandað sé til útfyllingar tjónstilkynningar (s.s. bankaupplýsingar, staðsetningu eignar, hvar eign er tryggð og tjónslýsingar) til  að koma í veg fyrir tafir við vinnslu málsins.

Ef aðstoðar er þörf geta vátryggðir leitað leiðbeininga og aðstoðar hjá starfsfólki NTÍ, Hlíðasmára 14, 201 Kópavogi, í gegnum netfangið nti@nti.is eða í síma 575 3300. Utan skrifstofutíma má ná í framkvæmdastjóra í síma 892 1110.


Til upplýsinga

Tjón

Ef tjón hefur orðið á vátryggðum eignum er nauðsynlegt að tilkynna það eins fljótt og hægt er eftir að tjón hefur orðið. Þetta er gert með því að fylla út tjónstilkynningu hér á vefnum.

Vakin er athygli á því að vátryggður getur glatað rétti sínum til bóta vegna tómlætis ef hann tilkynnir ekki um kröfu sína innan árs frá því að hann vissi um atvik sem hún er reist á. Auk þess er skylt að vátryggja tilgreind mannvirki þótt þau séu ekki brunatryggð. 

 Nánar

Náttúruhamfaratryggingar

Skv. lögum nr. 55/1992 um Náttúruhamfaratryggingu Íslands skal stofnunin vátryggja gegn beinu tjóni af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða.

Skylt er að vátryggja allar húseignir og lausafé sem er brunatryggt hjá vátryggingafélagi sem starfsleyfi hefur hér á landi og sjá vátryggingarfélögin um innheimtu iðgjalda fyrir hönd stofnunarinnar.

 Nánar

Lög og reglur

Helstu lög og reglur sem um starfsemina gilda

Lög um Náttúruhamfaratryggingu Íslands nr. 55/1992

Reglugerð um Náttúruhamfaratryggingu Íslands nr. 700/2019 (gildir frá 9. júlí 2019)


 Nánar

Algengar spurningar

Allar húseignir og lausafé sem er brunatryggt hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Íslandi.

Einnig er skylt að vátryggja neðangreind mannvirki þótt þau séu ekki brunatryggð: 
Hitaveitur, vatnsveitur, skolpveitur, hafnarmannvirki, raforkuvirki og síma- og fjarskiptamannvirki í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs. 
Brýr sem eru 50 m eða lengri og skíðalyftur

NTÍ tryggir gegn beinu tjóni af völdum eftirfarandi náttúruhamfara:

Eldgos

Jarðskjálftar

Skriðuföll

Snjóflóð

Vatnsflóð

Næsti stjórnarfundur verður haldinn 19. desember 2019. Síðasti skiladagur erinda fyrir fundinn er fimmtudaginn 12. ágúst 2019.


Þegar tjón hefur orðið vegna náttúruhamfara skal vátryggður þegar í stað tilkynna það stofnuninni.

Hnappur til að tilkynna tjón er í horninu efst til hægri á síðunni. Innskráning er í gegnum island.is. Leiðbeiningar fyrir lögaðila má finna hér. 

Ef viðskiptavinir verða fyrir einhverjum truflunum við notkun á tjónstilkynningakerfinu óskum við eftir því að þeir hafi samband símleiðis við þjónustuver okkar í síma 575-3300 eða með tölvupósti á nti@nti.is

Eftir að tilkynning berst er hún metin og eftir atvikum send til óháðs matsmanns sem boðar fund með eiganda til tjónaskoðunar. Matsmaður skilar matsgerð (skýrslu um niðurstöðu) til NTÍ sem tekur ákvörðun á grundvelli hennar samhliða uppgjöri tjónabóta. Hafi eigandi athugasemdir við ákvörðunina, skal hann koma þeim á framfæri innan þess frests sem gefinn er upp í ákvörðunarbréfi. Móttaka tjónabóta hefur ekki áhrif á réttindi eiganda til athugasemda.

Almenningur getur fengið upplýsingar um hvort eign sé skráð hjá NTÍ og hvort skemmdir hafi verið metnar.

Aðilum stjórnsýslumáls er heimilt af fá öll gögn málsins önnur en vinnuskjöl og öðrum með lögvarða hagsmuni er heimilt að fá sömu gögn án fjárhagslegra og/eða persónulegra upplýsinga.

Beiðni um gögn skulu berast skriflega í gegnum tölvupóstfangið nti@nti.is